Fyrirtækið Þraut ehf var stofnað og mótað af þremur sérfræðingum Arnóri Víkingssyni gigtarlækni, Sigrúnu Baldursdóttur sjúkraþjálfara og lýðheilsufræðingi og Eggerti S Birgissyni sálfræðingi sem allir eru með sértæka þekkingu á heilkenni vefjagigtar og tengdum sjúkdómum. Þraut er með samning við Sjúkratryggingar Íslands frá 1. apríl 2011.
Markmið Þrautar ehf er að stuðla að markvissri, hágæðaþjónustu fyrir fólk með vefjagigt og tengda sjúkdóma í þeim tilgangi að auka lífsgæði þeirra og færni til daglegra athafna, auka skilvirkni innan heilbrigðiskerfisins í mati og meðferð sjúklinga og draga úr beinum og óbeinum heilbrigðiskostnaði vegna þessara sjúkdóma. Með tilvísun í erlendar rannsóknir eru miklar líkur á að þessi framkvæmd muni draga úr notkun sjúklinga á heilbrigðisþjónustu, minnka lyfjanotkun og auka þátttöku fólks í samfélaginu.
Þessum markmiðum hyggst Þraut ná með:
1. Ítarlegu greiningarferli á líkamlegum, sálrænum og félagslegum þáttum, sem hafa þýðingu í tilurð og/eða viðhaldi vefjagigtareinkenna hjá einstaklingnum.
2. Ráðgjöf annarra sérfræðinga í greiningarferlinu þegar þess er þörf og stuðla þannig að myndun víðtæks tengslanets sérfræðinga í ýmsum greinum.
3. Samhæfðu mati greiningaraðila á sjúkdómsástandi sjúkling.
4. Ráðgjöf til heimilislæknis eða annarra frummeðferðaraðila viðkomandi varðandi stöðu sjúkdóms og meðferðarúrræði.
5. Fræðslu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra um eðli, framgang og meðferð í vefjagigt og mikilvægi sjálfshjálpar í að sporna við frekari versnun sjúkdómsins og minnkandi færni.
6. Sérhæfðri þverfaglegri endurhæfingu, stuðningi og eftirfylgd við sjúkling að meðferð lokinni.
7. Fræðslu fyrir heilbrigðisstarfsfólk á vefjagigt til að auka þekkingu, eyða fordómum og auka skilning á sjúkdómnum en það er forsenda þess að góður meðferðarárangur náist.
8. Því að gera Þraut ehf að miðstöð bestu vísindalegrar þekkingar á þessu sviði.