Þraut


Rannsóknir

Í dag eru eftirfarandi rannsóknaverkefni í gangi eða í undirbúningi:


1. Áhrif skyndilegs andlegs álags á framleiðslu streituhormónsins kortisóls í vefjagigt samanborið við hjá heilbrigðum.
Þessi rannsókn er unnin í samvinnu við Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum á Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands, Lyflækningasvið Landspítalans og Klíníska lífefnafræðideild Landspítalans.
Staða verkefnis: Rannsókn er lokið, áhugaverðar niðurstöður fengust; greinaskrif eru framundan.

2. Greining erfðaþátta í orsökum aukins verkjanæmis hjá sjúklingum með langvinna verki. Rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar þar sem Þraut er einn af samstarfsaðilum. Mjög metnaðarfull rannsókn sem vonast er til að varpi frekara ljósi á meingerð verkja og verkjanæmis. Þraut annast mælingar á þrýstingsverkjanæmi allra vefjagigtarsjúklinga sem taka þátt í rannsókninni.
Staða verkefnis:  Búið er að fá rúmlega 200 vefjagigtarsjúklinga til þátttöku. Stefnt er að því að mæla þrýstingsverkjanæmi hjá allt að 1500 einstaklingum.

3.  Áhrif líkamshreyfingar á framleiðslu streituhormónsins kortisóls og á framleiðslu vaxtarhormóns, bólgumiðla og andbólgumiðla í vefjagigt.
Framsýn rannsókn þar sem jafnframt verða metin áhrif 8 vikna endurhæfingar á seytun ofangreindra hormóna og bólgutengdra þátta.
Rannsóknin er unnin í samstarfi við Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum á Landspítala, Læknadeild Háskóla Íslands, Lyflækningasvið Landspítalans og Klíníska lífefnafræðideild Landspítalans.
Staða verkefnis: Verið er að safna fé til þessarar rannsóknar. Fyrirhugað að rannsóknin fari fram september 2015 til maí 2016.

4.  Árangur endurhæfingar vefjagigtarsjúklinga hjá Þraut. Metin er staða vefjagigtarsjúklinga við fyrsta mat hjá Þraut, við upphaf endurhæfingarmeðferðar og síðan 6 mánuðum eftir endurhæfinguna.
Staða verkefnis: Verið er að safna gögnum.  Fyrirhugað að skrifa grein í Læknablaðið fyrir árslok 2015.

5. Tengsl bólguþátta og andbólguþátta við verkjanæmi heilbrigðra einstaklinga og vefjagigtarsjúklinga . 
Verkefni unnið í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu, Læknadeild Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum.
Staða verkefnis:  Björn Hjörvar Harðarsons 3ja árs læknanemi vinnur nú að þessu verkefni og mun skila BS ritgerð við Læknadeild HÍ að rannsókninni lokinni í maí 2015.

6.  Áhrifaþættir í stýrðri verkjastillingu í vefjagigt og í heilbrigðum einstaklingum. Verkefni unnið í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu, Læknadeild Háskóla Íslands og Rannsóknastofu í gigtsjúkdómum.
Staða verkefnis:  Valgerður Bjarnadóttir 3ja árs læknanemi vinnur nú að þessu verkefni og mun skila BS ritgerð við Læknadeild HÍ að rannsókninni lokinni í maí 2015.

7. Vottun á trúverðugleika íslenskrar þýðingar FIQ vefjagigtar-spurningalistans.
Verkefnið er unnið í samstarfi við Gunnar Tómasson gigtlækni í Læknasetrinu.